Monday, January 29, 2007

Jóa Fel steikin og með því

Krónhjartarsteik
~200gr á mann, nautalund er alveg málið líka.

Kjötið er brúnað á pönnu og kryddað með salti og pipar, nokkrar timjangreinar eru steiktar með (má sleppa).
Kjötið er sett í eldfast mót og eldað við 180° í u.þ.b. 12 mín eða þar til kjarninn er kominn í c.a 55° látið kjötið standa í c.a 5-7 mín áður en það er skorið.
Jói Fel sýnir hvernig kokkurinn gerir þetta


Sósa
½ shalottulaukur
Blandaðir Sveppir
1 dl rauðvín
2 dl villibráðasoð
1dl rjómi
1-2 tsk Gráðostur
1 tsk Rifsberjasulta
Salt og pipar
1 msk Smjör

Nokkrir sveppir eru steiktir ásamt lauk á pönnunni sem kjötið var steikt á, 1 dl af rauðvíni er sett saman við og soðið niður um helming. U.þ.b. 2 dl af villibráðasoði er sett saman við og að síðustu er rjóminn settur saman við. Kryddið með salti og pipar, setjið sultu og gráðost út í. Setjið smjör í sósuna og slökkvið undir.

Villisveppa ragú
Fullt af sveppum af vild
Shitakae sveppir
Portobello sveppir
Flúðasveppir
1 dl rjómi
Salt og pipar

Sveppirnir eru steiktir á pönnu upp úr olíu og smöri ef vill. Steikið sveppina vel og kryddið með salti og pipar. Setjið rjómann saman við undir lokin og látið sjóða vel niður.

Kartöflur
Bökunarkartöflur eru skornar í stórar stafi og steiktar á pönnu á öllum hliðum, kryddaðar með miklu salti.
Setjið í eldfast mót og setjið meira salt yfir.
Bakið við 180° í c.a 20 mín.

Unaðslegt brauð

Þetta brauð fékk ég hjá mömmu Önnu vinkonu í sveitinni. Ég veit ekki hvort það var stemningin að sitja úti á palli á yndislegum sumardegi í Finnlandi og borða, en þetta var bara besta brauð sem ég hef smakkað. Á reyndar eftir að baka það aftur. En hér kemur uppskriftin:

5 dl volgt vatn
50 gr (1 pakki blautger) ger
sýróp

Blanda þessu saman í skál og láta standa í smá tíma og freyða

Blanda síðan saman við maukið:
Raspaðar gulrætur (u.þ.b 5 litlar gulrætur).
2 lófar sólblómafræ
2 lófar sesamfræ
2 lófar valmúafræ - eða sjálfsagt bara hvað sem er
Um 10 dl hveiti (það má vera hvetiblanda)
Olífuolía (um 1-2 dl)

*Blandan er þá frekar blaut. Hún þarf eiginlega að vera eins blaut og hægt er að vera - samt nógu þurr til að hægt sé að hnoða deigið og búa til bollur úr því. Þið finnið það út með hveitinu og olíunni.
*Hnoða duglega og láta standa í 30 mínútur
*Búa til bollur, rúlla þeim uppúr hveiti og sesamfræjum, og leggið á bökunarplötu
*Láta hefast í 1-2 klukkutíma

Baka við 225 gráður í um hálftíma

Og hér kemur punkturinn yfir i-ið: Þegar platan er tekin úr ofninum, leggið þykka ábreiðu (t.d. eins og 2 þykk handklæði) yfir brauðið og látið það jafna sig. Þannig verður það dúnmjúkt að innan með yndislegri crispy skorpu.

Mulligatawny - Indversk naglasupa

Þetta er mergjuð súpa. Ég geri hana alltaf tvöfalda því hún klárast eiginlega alltaf og svo getur maður fryst. Þetta er líka kjörið til að nýta afgangs kjúkling og hrísgrjón. Líka æðisleg veikindasúpa. Holl, einföld og bragðgóð

Mulligatawny (indversk naglasúpa)

2 dl rauðar linsur
1 lítri grænmetis eða kjúklingakraftur
skvetta af túrmerik
5 hvítlauksrif
skvetta af kóríanderdufti
2-3 cm engifer
1 msk kúmínduft
smá af cayenne pipar
olía
salt og pipar
2 dl afgangs kjúklingur eða hrísgrjón (eða bæði)
2 msk sítrónusafi
1 dl kókósmjólk

1) skola linsur og sjóða í krafti ásamt turmerik í 30 mín
2) Hakka saman hvítlauk og engifer (ég geri það í töfrasprotanum en það er sjálfsagt líka hægt að gera það með raspara eða blandara) . Blanda smá vatni saman við þannig að það verði svona "paste". Steikja maukið á pönnu í olíu ásamt hinum kúmín, kóríander og cayenne í svona 2 mínútur.
3) Blanda maukinu saman við súpuna. Bæta við kjúkling / grjónum og láta suðu koma upp. Bæta við kókosmjólk og sítrónusafa. Salt og pipar eftir smekk