Monday, July 23, 2007

Tandoori kjúklingur

Þessi uppskrift er úr sænsku bókinni minni "Kärlek, oliver och timjan". Bókina gerðu tvær konur eftir að þær ferðuðust um Asíu og Suður-Evrópu og viðuðu að sér miklum matarfróðleik.

fyrir 4
4 kjúklingabringur
4 dl jógúrt
1 1/2 tsk salt
2 pressuð hvítlauksrif
2 msk sítrónusafi
1 kúfuð tsk garam masala
1/2 tsk chiliduft
1 tsk turmerik/gurkmeja
svartur eða hvítur pipar
1 msk olífuolía

Blanda jógurt, kryddum , hvítlauki og sítrónusafa saman. Marinera kjúklingabringurnar í amk 2 klst (frábært að gera yfir nótt). Látið þetta standa í ísskáp. Takið síðan bringurnar úr marineringunni og grillið í ofni eða á útigrillinu. Snúið einu sinni.

Gott að bera fram með Raita (sjá neðan), naan brauði, basmatihrísgrjónum og strengjabaunum.

Raita

Skera 20 cm gúrku í mjög smá teninga. Gerið það sama við 1/2 gulrót. Fínsaxa 1 rauðlauk. Takið kjarnann úr 2 tómötum og skerið aldinkjötið mjög smátt. Blandið öllu þessu með 5-6 dl af venjulegri jógúrt (jógúrt til matargerðar). Bragðbæta með salti og pipar, 1/2 tsk cumin, 1/4 tsk paprikuduft og 2 msk fínsöxuðum kóríander. Látið standa í ca 1 klst til að brögðin komi fram.

Rababarakaka

Þessi er mjög góð og alls ekki óholl. Kakan er ekki mjög sæt en þeim sem finnst gott að finna rababarabragðið líkar vel við þessa köku og svo er hún afskaplega einföld.

375 g rababari
60 g sykur

Skera rababara í 2 cm bita. Sett á kalda teflonpönnu ásamt sykri og hitað þar til að sykur hefur bráðnað og vökvi myndast. Malla í ca 2- 4 mín. Taka af hita og kæla.

2, 5 dl léttmjólk
50 g sykur
3 egg
2 tsk vanillusykur
75 g hveiti/spelt
50 g möndluflögur
2 tsk flórsykur

Mjólk, sykur, egg, hveiti og vanillusykur sett í matvinnsluvél og þeytt í 1-2 mín. Gott að nota töfrasprotann. Rababarinn settur í eldfast mót og deigblöndunni hellt yfir. Möndluflögum stráð yfir og bakað við 200°C í 40 - 60 mín. Flórsykur sigtaður yfir áður en borið fram. Gott með ís eða rjóma.

Tómatsúpa frá Zansibar

Ég gerði þessa geggjuðu súpu í kvöld og hún sló í gegn á Brekkustígnum.

Fyrir 3-4 sem forréttur
500 gr þroskaðir tómatar
4 meðalstórir laukar, saxaðir fínt
2 stórir hvítlauksgeirar, kramdir
160 gr kartöflur
1,5 kúfuð matskeið af tómatpuree

500 ml grænmetissoð (Má vera meira af vatni ef þið viljið hafa tómatsúpuna þynnri en bætið þá grænmetisteningi við)
1 msk kókosfeiti eða ólífuolía
1 tsk þurrkað basil
Pipar, salt
Heilsusalt (Herbamare) /ferskar kryddjurtir (steinselja, mynta, oregano, marjoram fínt saxað eftir smekk)

Aðferð:
Skellið sjóðandi heitu vatni yfir tómatana og látið standa í skál í 1 mínútu.
Afhýðið tómatana.
Skerið tómatana í báta og setjið í eldfast mót (strjúkið smá ólífuolíu í eldhúspappír yfir eldfasta mótið).
Skerið tvo af laukunum fjórum í báta og raðið í eldfasta mótið.
Hitið ofarlega í ofninum við 220°C í um 40-50 mínútur eða þangað til brúnirnar á tómötunum og laukunum eru orðnar dökkar og jafnvel svartar.
Saxið hina laukana tvo ásamt hvítlauknum og steikið í smá kókosfeiti eða ólífuolíu á pönnu þangað til þeir verða mjúkir.
Skerið kartöflurnar í bita og setjið á pönnu ásamt smá ólífuolíu og vatni og tómatpuree.
Setjið kartöflurna og laukinn í pott og bætið grænmetissoðinu saman við ásamt rúmlega 500 ml af vatni og látið kartöflurnar sjóða í um 20 mínútur.
Þegar þetta er orðið tilbúið, látið þá kólna aðeins.
Setjið í matvinnsluvél og maukið.Takið nú eldfasta mótið úr ofninum, kælið aðeins og færið líka yfir í matvinnsluvélina
Maukið meira ef þið viljið hafa súpuna vel blandaða en minna ef þið viljið hafa bita í henni.
Berið fram með nýbökuðu brauði og soðnum eggjum.

Þessa súpu er mjög gott að gera daginn áður en bera á hana fram.

Tuesday, July 10, 2007

Amerískar pönnukökur

3 egg stífþeytt
2 bollar súrmjólk
2 bollar hveiti
2 tsk lyftiduft
2 msk sykur
100 g smjör brætt

Eggin stífþeytt, súrmjólkinni bætt út í og þurrefnum þar á eftir. Gott að sigta þurrefnin. Að lokum er bráðnu smjörinu bætt við. Bakað á lágum hita.

Þetta er stór uppskrift - ríflegt fyrir fjóra.

Sunday, April 1, 2007

Cordon Bleu að hætti Tinu

Þetta er sko uppáhaldsmaturinn hans Matta. Ég elda hann alltaf þegar ég vil vera góð við kallinn. Ég fékk uppskriftina upprunalega frá sænska sjónvarpskokkinum Tinu en er búin að laga hana til og gera hana mína. Með kjúklingabringum er hún alveg namminamm.

fyrir 2

2 kjúklingabringur
ostur
skinka
dijon sinnep
1 egg
hveiti
brauðmylsna (eða svona ströbröd, hvað það er nú á íslensku)
salt og pipar

- fletjið út kjúklingabringurnar eins mikið og þið getið. Ég nota kjöthamar en það má nota kökukefli og berja þær niður.
- leggið á þær ost (okkur finns gott að hafa glás af osti), skinku og smyrið vel með dijon sinnepi. Brjótið saman til helminga og reynið að halda góssinu sem mest inni.
- setjið í 3 skálar: 1 egg sem búið er að hræra saman, smá hveiti og smá brauðmylsnu.
- nú takið þið bringurnar og dýfið þeim fyrst í eggjaskálina, svo í hveitiskálina, loks í brauðmylsnuskálina. Þekið vel. Kryddið með salti og pipar.
- þá hita ég pönnuna, set smá smjör og ólífuolíu á pönnuna. Þegar hún er orðin heit set í kjúllana á pönnuna. Steiki svona 2 mínútur á hvorri hlið.
- Loks setur maður bringurnar inní ofn þar til að þær eru done. Það tekur svona 20-30 mínútur.

Frönsk súkkulaðikaka

Þessi kaka er frá Sophie frönsku vinkonu okkar. Það eiga allir Frakkar sínar prívat súkkulaðikökuuppskriftir, sem þeir hafa fengið frá ömmu sinni og þannig. Þessi kaka er einmitt ein svona. Hún er alger syndsamlegur uuuuunaður, einföld og það besta er að hún er enn betri daginn eftir, þannig að það er hægt að baka hana kvöldinu áður og slá svo í gegn í matarboðinu.

250 grömm suðusúkkulaði
250 grömm smjör
75 gr hveiti (rúmlega 1 dl)
4 egg
1 1/2 bolli (ca. 100 gr.) sykur

Bræða súkkulaði í vatnsbaði og blanda smjöri saman við þar til að allt er bráðið fallega saman
Sigta hveiti út í blönduna og hræra

Í annarri skál þeyta saman 4 egg og bæta við sykri. Láta þeytast saman í smá tíma eða þar til vel blandað.

Blanda þessum tveimur blöndum saman þar til að allt er jafnt og er með fallegan brúnan lit.

Hella í smurt kökuform (helst sem hægt er að losa botninn frá) og baka við 180 gráður í 20-30 mínútur (eftir því hve öflugur ofninn er). Ekki ofbaka.

Berið fram samdægurs, og hún er enn betri daginn eftir. Borðið ÁN samviskubits!

Monday, February 26, 2007

Satay kjúklingasalat (frá Vegamótum er mér sagt)

-fyrir sex-

Sex kjúklingabringur, skornar í strimla, kryddaðar með salti og pipar og steiktar á pönnu.

Salatblanda að eigin vali.

Sósa
1 dós kókosmjólk
1 bolli salthnetur
½ ferskt chili
2 msk. sítrónugras, fínt saxað
5 hvítlauksgeirar
salt eftir smekk
2 msk. soyasósa
1 bolli púðursykur
1/2 búnt coriander
3 lauf kaffírlime (fæst í austurlenskum búðum)
kanelduft á hnífsoddi
1/2 paprika, smátt skorin
fennelduft á hnífsoddi
1/2 rauðlaukur smátt skorinn
cayenne pipar á hnífsoddi


Allt hráefnið, sem á að fara í sósuna, er sett saman í pott ásamt tveimur dl af vatni og soðið í hálfa klukkustund.
Í lok suðutímans er maukað eilítið með töfrasprota og saxaðar niður hneturnar og laukurinn.
Salatblöndunni er síðan skipt á sex diska og kjúklingastrimlunum raðað ofan á.
Að síðustu er sósunni hellt yfir.
Borið fram með hvítlauksnanbrauði.

Wednesday, February 7, 2007

Jarðhnetusmákökur

125g hveiti
1 tsk lyftiduft
50 ósaltar jarðhnetur
50g mjúkt smjör
50g jarðhnetusmjör
100g sykur
1 egg
1 vanillustöng

Hitið ofninn í 200°C. Blandið hveiti og lyftidufti saman. Saxið jarðhneturnar gróft.
Þeytið smjör, jarðhnetusmjör, sykur og egg vel saman. Bætið þurrefnunum út í og hnoðið deigið. Kljúfið vanillustöngina og skafið fræmaukið úr. Bætið fræmaukinu og jarðhnetunum út í deigið.
Mótið 16 litlar kúlur úr deiginu með höndunum. Ýtið aðeins á þær með fingurgómunum. Leggið smjörpappír á bökunarplötu og raðið kúlunum á með hæfilegu millibili.
Bakið í miðjum ofni í um 10-15 mínútur. Kælið á kökugrind.

Monday, February 5, 2007

SPÆNSKUR KJÚKLINGARÉTTUR
fyrir 8

8 kjúklingabringur (eða 2 heilir kjúklingar)

marinering:
1/2 hvítlaukur, saxaður
1/4 bolli rauðvínsedik 1/8 bolli oregano
1/2 bolli sveskjur
1/4 bolli ólívur
1/4 bolli kapers
1 bolli ólívuolía
6 lárviðarlauf
salt og pipar, eftir smekk
1/4 bolli steinselja söxuð
1/2 bolli hvítvín
1/2 bolli púðursykur

Setjið allt í skál nema steinselju, hvítvín og púðursykur. Hrærið vel saman og bætið kjúklingnum út í. Látið marinerast í 6-24 klst. Setjið í eldfast mót og bætið þá við steinselju, hvítvíni og púðursykri. Steikið í 180°C heitum ofni í rúmlega 40 mín. Berið fram með t.d snittubrauði og hrísgrjónum. Gjarnan má setja meira af kapers, sveskjum, hvítlauk og ólívum í marineringunni ef vill.
Njótið vel!

Saturday, February 3, 2007

Gráðaostsrúlla

125g gráðostur
1/2-1 blaðlaukur, saxaður
1 1/2 dós sýrður rjómi
rúllutertubrauð
rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°C. Myljið gráðaostinn í skál, bætið blaðlauknum og sýrða rjómanum við og hrærið saman. Smyrjið blöndunni á rúllutertubrauðið og rúllið því upp. Stráið rifnum osti yfir og bakið í um 20 mínútur.

Rúllubrauð með pestóblöndu

1 rúllutertubrauð

1 krukka grænt pestó
100g skinka, skorin í smátt
50g svartar ólífur, saxaðar
50 g sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 mozzarella-ostakúla, skorin í bita
4 msk + parmesanostur, rifinn
pipar

4 msk parmesanostur, rifinn til að setja ofan á.

Blandið saman pestói, skinku, ólífum, tómötum, hvítlauk, mozzarellaosti og 4msk af parmesanosti. Piprið eftir smekk.
Smyrjið blöndunni á brauðið og rúllið því upp. Stráið rifnum parmesanosti yfir.
Bakið við 180°C í 1-15 mínútur.

Súkkulaðifondant

fyrir sex
350g dökkt gæðasúkkulaði
50g mjúkt ósaltað smjör, ögn meira fyrir formin
150g sykur ("caster sugar", sem er fínmalaðri, ef til)
4 stór egg, hrærð með slettu af salti
1 tsk vanilludropar
50g hveiti
6 litlar eldfastar skálar/bollar

Setjið ofninn á 200°C ásamt bökunarplötu.
Klippið út passlega hringi úr bökunarpappír og setjið í botninn á skálunum.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og leyfið því að kólna aðeins.
Þeytið smjörið og sykur, og smám saman bætið við eggjum og salti, síðan vanilludropum. Setjið því næst hveitið saman við og þegar blandan er orðin jöfn og fín, setjið þá súkkulaðið saman við varlega með sleif.
Skiptið blöndunni á milli skálanna, setjið þær á heita bökunarplötuna og bakið í 10-12 mín.
Hvolfið á dessert-disk fyrir hvern og einn og setjið stóra flotta vanilluískúlu/rjómaslettu/créme fraise ofaná.

Hægt er að útbúa réttinn fyrirfram og geyma í ísskáp fram að kveldi. Þá þarf að baka í um 2-4 mínútur aukalega.

Monday, January 29, 2007

Jóa Fel steikin og með því

Krónhjartarsteik
~200gr á mann, nautalund er alveg málið líka.

Kjötið er brúnað á pönnu og kryddað með salti og pipar, nokkrar timjangreinar eru steiktar með (má sleppa).
Kjötið er sett í eldfast mót og eldað við 180° í u.þ.b. 12 mín eða þar til kjarninn er kominn í c.a 55° látið kjötið standa í c.a 5-7 mín áður en það er skorið.
Jói Fel sýnir hvernig kokkurinn gerir þetta


Sósa
½ shalottulaukur
Blandaðir Sveppir
1 dl rauðvín
2 dl villibráðasoð
1dl rjómi
1-2 tsk Gráðostur
1 tsk Rifsberjasulta
Salt og pipar
1 msk Smjör

Nokkrir sveppir eru steiktir ásamt lauk á pönnunni sem kjötið var steikt á, 1 dl af rauðvíni er sett saman við og soðið niður um helming. U.þ.b. 2 dl af villibráðasoði er sett saman við og að síðustu er rjóminn settur saman við. Kryddið með salti og pipar, setjið sultu og gráðost út í. Setjið smjör í sósuna og slökkvið undir.

Villisveppa ragú
Fullt af sveppum af vild
Shitakae sveppir
Portobello sveppir
Flúðasveppir
1 dl rjómi
Salt og pipar

Sveppirnir eru steiktir á pönnu upp úr olíu og smöri ef vill. Steikið sveppina vel og kryddið með salti og pipar. Setjið rjómann saman við undir lokin og látið sjóða vel niður.

Kartöflur
Bökunarkartöflur eru skornar í stórar stafi og steiktar á pönnu á öllum hliðum, kryddaðar með miklu salti.
Setjið í eldfast mót og setjið meira salt yfir.
Bakið við 180° í c.a 20 mín.

Unaðslegt brauð

Þetta brauð fékk ég hjá mömmu Önnu vinkonu í sveitinni. Ég veit ekki hvort það var stemningin að sitja úti á palli á yndislegum sumardegi í Finnlandi og borða, en þetta var bara besta brauð sem ég hef smakkað. Á reyndar eftir að baka það aftur. En hér kemur uppskriftin:

5 dl volgt vatn
50 gr (1 pakki blautger) ger
sýróp

Blanda þessu saman í skál og láta standa í smá tíma og freyða

Blanda síðan saman við maukið:
Raspaðar gulrætur (u.þ.b 5 litlar gulrætur).
2 lófar sólblómafræ
2 lófar sesamfræ
2 lófar valmúafræ - eða sjálfsagt bara hvað sem er
Um 10 dl hveiti (það má vera hvetiblanda)
Olífuolía (um 1-2 dl)

*Blandan er þá frekar blaut. Hún þarf eiginlega að vera eins blaut og hægt er að vera - samt nógu þurr til að hægt sé að hnoða deigið og búa til bollur úr því. Þið finnið það út með hveitinu og olíunni.
*Hnoða duglega og láta standa í 30 mínútur
*Búa til bollur, rúlla þeim uppúr hveiti og sesamfræjum, og leggið á bökunarplötu
*Láta hefast í 1-2 klukkutíma

Baka við 225 gráður í um hálftíma

Og hér kemur punkturinn yfir i-ið: Þegar platan er tekin úr ofninum, leggið þykka ábreiðu (t.d. eins og 2 þykk handklæði) yfir brauðið og látið það jafna sig. Þannig verður það dúnmjúkt að innan með yndislegri crispy skorpu.

Mulligatawny - Indversk naglasupa

Þetta er mergjuð súpa. Ég geri hana alltaf tvöfalda því hún klárast eiginlega alltaf og svo getur maður fryst. Þetta er líka kjörið til að nýta afgangs kjúkling og hrísgrjón. Líka æðisleg veikindasúpa. Holl, einföld og bragðgóð

Mulligatawny (indversk naglasúpa)

2 dl rauðar linsur
1 lítri grænmetis eða kjúklingakraftur
skvetta af túrmerik
5 hvítlauksrif
skvetta af kóríanderdufti
2-3 cm engifer
1 msk kúmínduft
smá af cayenne pipar
olía
salt og pipar
2 dl afgangs kjúklingur eða hrísgrjón (eða bæði)
2 msk sítrónusafi
1 dl kókósmjólk

1) skola linsur og sjóða í krafti ásamt turmerik í 30 mín
2) Hakka saman hvítlauk og engifer (ég geri það í töfrasprotanum en það er sjálfsagt líka hægt að gera það með raspara eða blandara) . Blanda smá vatni saman við þannig að það verði svona "paste". Steikja maukið á pönnu í olíu ásamt hinum kúmín, kóríander og cayenne í svona 2 mínútur.
3) Blanda maukinu saman við súpuna. Bæta við kjúkling / grjónum og láta suðu koma upp. Bæta við kókosmjólk og sítrónusafa. Salt og pipar eftir smekk