Monday, July 23, 2007

Tandoori kjúklingur

Þessi uppskrift er úr sænsku bókinni minni "Kärlek, oliver och timjan". Bókina gerðu tvær konur eftir að þær ferðuðust um Asíu og Suður-Evrópu og viðuðu að sér miklum matarfróðleik.

fyrir 4
4 kjúklingabringur
4 dl jógúrt
1 1/2 tsk salt
2 pressuð hvítlauksrif
2 msk sítrónusafi
1 kúfuð tsk garam masala
1/2 tsk chiliduft
1 tsk turmerik/gurkmeja
svartur eða hvítur pipar
1 msk olífuolía

Blanda jógurt, kryddum , hvítlauki og sítrónusafa saman. Marinera kjúklingabringurnar í amk 2 klst (frábært að gera yfir nótt). Látið þetta standa í ísskáp. Takið síðan bringurnar úr marineringunni og grillið í ofni eða á útigrillinu. Snúið einu sinni.

Gott að bera fram með Raita (sjá neðan), naan brauði, basmatihrísgrjónum og strengjabaunum.

Raita

Skera 20 cm gúrku í mjög smá teninga. Gerið það sama við 1/2 gulrót. Fínsaxa 1 rauðlauk. Takið kjarnann úr 2 tómötum og skerið aldinkjötið mjög smátt. Blandið öllu þessu með 5-6 dl af venjulegri jógúrt (jógúrt til matargerðar). Bragðbæta með salti og pipar, 1/2 tsk cumin, 1/4 tsk paprikuduft og 2 msk fínsöxuðum kóríander. Látið standa í ca 1 klst til að brögðin komi fram.

Rababarakaka

Þessi er mjög góð og alls ekki óholl. Kakan er ekki mjög sæt en þeim sem finnst gott að finna rababarabragðið líkar vel við þessa köku og svo er hún afskaplega einföld.

375 g rababari
60 g sykur

Skera rababara í 2 cm bita. Sett á kalda teflonpönnu ásamt sykri og hitað þar til að sykur hefur bráðnað og vökvi myndast. Malla í ca 2- 4 mín. Taka af hita og kæla.

2, 5 dl léttmjólk
50 g sykur
3 egg
2 tsk vanillusykur
75 g hveiti/spelt
50 g möndluflögur
2 tsk flórsykur

Mjólk, sykur, egg, hveiti og vanillusykur sett í matvinnsluvél og þeytt í 1-2 mín. Gott að nota töfrasprotann. Rababarinn settur í eldfast mót og deigblöndunni hellt yfir. Möndluflögum stráð yfir og bakað við 200°C í 40 - 60 mín. Flórsykur sigtaður yfir áður en borið fram. Gott með ís eða rjóma.

Tómatsúpa frá Zansibar

Ég gerði þessa geggjuðu súpu í kvöld og hún sló í gegn á Brekkustígnum.

Fyrir 3-4 sem forréttur
500 gr þroskaðir tómatar
4 meðalstórir laukar, saxaðir fínt
2 stórir hvítlauksgeirar, kramdir
160 gr kartöflur
1,5 kúfuð matskeið af tómatpuree

500 ml grænmetissoð (Má vera meira af vatni ef þið viljið hafa tómatsúpuna þynnri en bætið þá grænmetisteningi við)
1 msk kókosfeiti eða ólífuolía
1 tsk þurrkað basil
Pipar, salt
Heilsusalt (Herbamare) /ferskar kryddjurtir (steinselja, mynta, oregano, marjoram fínt saxað eftir smekk)

Aðferð:
Skellið sjóðandi heitu vatni yfir tómatana og látið standa í skál í 1 mínútu.
Afhýðið tómatana.
Skerið tómatana í báta og setjið í eldfast mót (strjúkið smá ólífuolíu í eldhúspappír yfir eldfasta mótið).
Skerið tvo af laukunum fjórum í báta og raðið í eldfasta mótið.
Hitið ofarlega í ofninum við 220°C í um 40-50 mínútur eða þangað til brúnirnar á tómötunum og laukunum eru orðnar dökkar og jafnvel svartar.
Saxið hina laukana tvo ásamt hvítlauknum og steikið í smá kókosfeiti eða ólífuolíu á pönnu þangað til þeir verða mjúkir.
Skerið kartöflurnar í bita og setjið á pönnu ásamt smá ólífuolíu og vatni og tómatpuree.
Setjið kartöflurna og laukinn í pott og bætið grænmetissoðinu saman við ásamt rúmlega 500 ml af vatni og látið kartöflurnar sjóða í um 20 mínútur.
Þegar þetta er orðið tilbúið, látið þá kólna aðeins.
Setjið í matvinnsluvél og maukið.Takið nú eldfasta mótið úr ofninum, kælið aðeins og færið líka yfir í matvinnsluvélina
Maukið meira ef þið viljið hafa súpuna vel blandaða en minna ef þið viljið hafa bita í henni.
Berið fram með nýbökuðu brauði og soðnum eggjum.

Þessa súpu er mjög gott að gera daginn áður en bera á hana fram.

Tuesday, July 10, 2007

Amerískar pönnukökur

3 egg stífþeytt
2 bollar súrmjólk
2 bollar hveiti
2 tsk lyftiduft
2 msk sykur
100 g smjör brætt

Eggin stífþeytt, súrmjólkinni bætt út í og þurrefnum þar á eftir. Gott að sigta þurrefnin. Að lokum er bráðnu smjörinu bætt við. Bakað á lágum hita.

Þetta er stór uppskrift - ríflegt fyrir fjóra.