Sunday, April 1, 2007

Cordon Bleu að hætti Tinu

Þetta er sko uppáhaldsmaturinn hans Matta. Ég elda hann alltaf þegar ég vil vera góð við kallinn. Ég fékk uppskriftina upprunalega frá sænska sjónvarpskokkinum Tinu en er búin að laga hana til og gera hana mína. Með kjúklingabringum er hún alveg namminamm.

fyrir 2

2 kjúklingabringur
ostur
skinka
dijon sinnep
1 egg
hveiti
brauðmylsna (eða svona ströbröd, hvað það er nú á íslensku)
salt og pipar

- fletjið út kjúklingabringurnar eins mikið og þið getið. Ég nota kjöthamar en það má nota kökukefli og berja þær niður.
- leggið á þær ost (okkur finns gott að hafa glás af osti), skinku og smyrið vel með dijon sinnepi. Brjótið saman til helminga og reynið að halda góssinu sem mest inni.
- setjið í 3 skálar: 1 egg sem búið er að hræra saman, smá hveiti og smá brauðmylsnu.
- nú takið þið bringurnar og dýfið þeim fyrst í eggjaskálina, svo í hveitiskálina, loks í brauðmylsnuskálina. Þekið vel. Kryddið með salti og pipar.
- þá hita ég pönnuna, set smá smjör og ólífuolíu á pönnuna. Þegar hún er orðin heit set í kjúllana á pönnuna. Steiki svona 2 mínútur á hvorri hlið.
- Loks setur maður bringurnar inní ofn þar til að þær eru done. Það tekur svona 20-30 mínútur.

Frönsk súkkulaðikaka

Þessi kaka er frá Sophie frönsku vinkonu okkar. Það eiga allir Frakkar sínar prívat súkkulaðikökuuppskriftir, sem þeir hafa fengið frá ömmu sinni og þannig. Þessi kaka er einmitt ein svona. Hún er alger syndsamlegur uuuuunaður, einföld og það besta er að hún er enn betri daginn eftir, þannig að það er hægt að baka hana kvöldinu áður og slá svo í gegn í matarboðinu.

250 grömm suðusúkkulaði
250 grömm smjör
75 gr hveiti (rúmlega 1 dl)
4 egg
1 1/2 bolli (ca. 100 gr.) sykur

Bræða súkkulaði í vatnsbaði og blanda smjöri saman við þar til að allt er bráðið fallega saman
Sigta hveiti út í blönduna og hræra

Í annarri skál þeyta saman 4 egg og bæta við sykri. Láta þeytast saman í smá tíma eða þar til vel blandað.

Blanda þessum tveimur blöndum saman þar til að allt er jafnt og er með fallegan brúnan lit.

Hella í smurt kökuform (helst sem hægt er að losa botninn frá) og baka við 180 gráður í 20-30 mínútur (eftir því hve öflugur ofninn er). Ekki ofbaka.

Berið fram samdægurs, og hún er enn betri daginn eftir. Borðið ÁN samviskubits!