Thursday, August 13, 2009

Tortillur með kjúklingi

Fínn hversdagsmatur eða fyrir matarboðið!

Uppskrift fyrir fjóra
Þrjár kjúklingabringur
4 msk olía
1 meðalstór laukur
1 rauð paprika
1 græn paprika
1 tsk reykt paprika frá La Chinata (hot) (allt í lagi að nota venjulega papriku líka!)
1 tsk kóríander
1 tsk oregano
salt ef vill
1 krukka af Salsa sósu
1 poki af mozzarella osti
26 % ostur eftir smekk
10 litlar Tortillakökur
Byrjið á því að setja olíuna á pönnu og steikið kjúklingabringurnar við vægan hita. Hafið lokið á pönnunni á meðan þær eru að steikjast og gætið þess vel að þær verði ekki brúnaðar að utan.
Á meðan kjúklingurinn er að eldast er laukurinn og paprikurnar skornar í bita. Þegar kjúklingabringurnar eru tilbúnar eru þær teknar af pönnunni. Bætið við örlítið meira af olíu og látið laukinn og paprikurnar mýkjast á pönnunni. Bætið kryddinu út í og látið malla í sirka sjö mínútur.
Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar og bætið út í laukinn og paprikurnar. Á þessu stigi málsins er Salsa sósunni bætt út í. Leyfið þessu að malla í tvær mínútur.
Takið Tortillakökurnar og dreifið ostsneiðum yfir alla kökuna. Síðan er fyllingin sett yfir helming kökunnar og mozzarella osti er stráð yfir. Síðan er kakan brotin saman og sett á ofnskúffu. Hinar kökurnar eru fylltar á nákvæmlega sama hátt.
Stillið ofninn á 200 gráður og bakið í sirka tíu mínútur eða þangað til osturinn er bráðnaður og kökurnar eru orðnar stökkar að utan.
Gott er að hafa ferskt salat með ásamt avókadómauki.